Aðalsíða

Vorfundur Skólapúlsins 2023 – Upptökur og stutt samantekt

9. júní, 2023

Skólapúlsinn hélt árlegan vorfund með notendum vefkerfa fyrirtækisins þann 25. maí s.l. Fundurinn var rafrænn á Zoom líkt og undanfarin ár. Efni fundarins var innihald kannana, niðurstöður og framkvæmd á öllum skólastigum. Farið var yfir helstu niðurstöður, túlkun þeirra útskýrð og rætt hvaða matsþáttum má bæta við og hvaða matsþáttum er ofaukið.

Hægt er að horfa á upptökur af fundinum með því að smella á viðkomandi dagskrárlið hér að neðan.

Meðal ákvarðana sem teknar voru var að bæta spænsku við sem tungumáli í báðum nemendakönnunum. Enn fremur verður nemendakönnun 6. – 10. bekkjar breytt þannig að spurningar miðast við kyn þess sem svarar (hann/hún/hán). Foreldrakönnun leikskóla verður breytt með sama hætti þannig að spurningar séu kynlausar. Ef vel tekst til verða aðrar kannanir teknar til sömu endurskoðunar í kjölfarið.

Matsþættir um mataræði og hreyfingu utan skólatíma í nemendakönnun 6. – 10. bekkjar verða fjarlægðir þar sem slíkt er nú þegar mælt í Íslensku æskulýðsrannsókninni og á betur heima þar. Í staðinn koma þrjár spurningar um mataráskrift í skólanum.

Fleiri smærri breytingar voru einnig ræddar og undirbúnar. Mæting á vorfundinn var góð og þökkum við fundargestum innilega fyrir að hafa gefið sér tíma til að deila reynslu sinni af notkun upplýsingakerfanna.

Í foreldrakönnun grunnskóla verða tvær fjölvalsspurningar um hvað foreldrar/forsjáraðilar annars vegar hafa áhrif á, og hins vegar vilja hafa áhrif á, í kennslustofunni (samtals 18 atriði) fjarlægðar. Matsþáttur um þátttöku án aðgreiningar í foreldrakönnun leikskóla verður endurskoðaður og spurningum um jafnrétti verður bætt við nemendakönnun framhaldsskóla.

Hlekkir á upptökur:

09.00-10.30 Sveitarfélög: Skólavogin og Starfsmannapúlsinn.
10.45-12.15 Framhaldsskóli: Nemendakönnun og Starfsmannapúlsinn.
13.30-15.00 Grunnskóli: Nemenda-, foreldra- og starfsmannakannanir.
15.30-17.00 Leikskóli: Nemenda-, foreldra- og starfsmannakannanir.