Aðalsíða

Niðurstöður úr mati stjórnenda sveitarfélaga á Skólavog

22. september, 2016

Í desember 2011 gerði Samband íslenskra sveitarfélaga samning til fimm ára við Skólapúlsinn ehf. um framkvæmd og úrvinnslu Skólavogar og var verkefninu ýtt úr vör í ársbyrjun 2012. Í árslok 2016 lýkur gildistíma samningsins og er þá formlegri aðkomu sambandsins að verkefninu lokið. Skólavogin heldur þó áfram að þróast sem verkfæri hjá Skólapúlsinum í samráði við notendur/þátttökusveitarfélög og má í því tilliti nefna vorfundi Skólapúlsins.

Síðastliðið vor var lögð fyrir könnun til stjórnenda allra sveitarfélaga sem eru þátttakendur í Skólavoginni. Tilgangur könnunarinnar vorið 2016 var að fá fram mat stjórnenda sveitarfélaga á Skólavoginni við lok samningstímans.
Könnunin var send út mánudaginn 6. apríl 2016 í tölvupósti á skólaskrifstofu eða framkvæmdastjóra í því 21 sveitarfélagi sem þátt taka í Skólavoginni.

Helstu niðurstöður voru þessar:
· Upplýsingar bárust frá 17 þátttökusveitarfélögum sem merkir að svarhlutfallið var 81%.

· Heilt yfir þykir sveitarfélögum einfalt að túlka niðurstöður viðhorfakannana en 84% segja mjög eða frekar einfalt að túlka niðurstöður foreldra- og starfsmannakönnunar og heil 94% segja það um niðurstöður nemendakönnunar.

· Skólavogin gerir þátttökusveitarfélögum mögulegt að skoða niðurstöður sínar í samanburði við önnur sveitarfélög. Langflest þeirra eða 83% bera saman niðurstöður úr nemendakönnun við niðurstöður annarra sveitarfélaga. Um 70% þeirra skoða árangur í samræmdum prófum og rekstrarkostnað í samhengi við niðurstöður annarra.

· Spurt var um þrjár nýjungar í Skólavog. Þau sem tóku afstöðu voru öll frekar eða mjög ánægð með þær en mest var ánægjan með yfirlitstöflur með samantekt um stöðu skóla (77%).

· Ef til boða stæði sambærilegt kerfi og Skólavogin fyrir aðra þjónustuþætti sveitarfélaga þykir helmingi sveitarfélaga mjög eða frekar líklegt að þau keyptu aðgang að slíku kerfi.

· Í könnuninni var greint frá því að við lok samningstímabils mun ný gjaldskrá líta dagsins ljós. Í því sambandi var horft til tveggja valkosta, A og B. Meirihluti þeirra sem svaraði leist betur á valkost B þar sem gjaldskráin lækkar um 30% og áskrift standi undir bæði rekstrarkostnaði sem mögulegum þróunarkostnaði.

· Þegar á heildina er litið segja 82% sveitarfélaga að niðurstöður Skólavogar gagnist sveitarfélaginu mikið eða mjög mikið.

Frekari upplýsingar má nálgast í skýrslunni sjálfri en hana má nálgast með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.
http://www.samband.is/media/skyrslur-og-utgafur-hag–og-upplysingasvid/Konnun_2016_svf_Skolavog.pdf

Áður hafði sambærileg könnun verið gerð árið 2014, eða um miðbik samningstímans við Skólapúlsinn ehf. en þær niðurstöður má finna hér http://www.samband.is/media/skolavogin/Skolavogin.pdf